Innlent

Ungu fólki í endur­hæfingu vegna of­fitu fjölgar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Vignir Sigurðsson er barnalæknir.
Vignir Sigurðsson er barnalæknir. Vísir/Getty

Læknir segir gríðarlega mikilvægt að bregðast sem fyrst við glími börn við offitu. Ungt fólk þarf í auknu mæli á endurhæfingu að halda vegna offitu sem börn. Algengara er að börn á landsbyggðinni glími við sjúkdóminn. 

Í dag fer fram heilbrigðisþing heilbrigðisráðherra en þingið í ár er helgað endurhæfingu. Fjöldi fræðimanna er þar með erindi og segir Alma Möller heilbrigðisráðherra verk að vinna í málaflokknum. Endurhæfing sé gríðarlega mikilvægur hluti af heilbrigðisþjónustu, mikilvægari en fólk geri sér grein fyrir.

Meiri þörf á endurhæfingu

Einn þeirra sem flytja erindi er Vignir Sigurðsson, barnalæknir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Hann leiðir verkefni sem kallast Kraftmiklir Krakkar, lífstílsmóttaka fyrir börn með offitu og foreldra þeirra.

„Ég er beðinn um að tala um offitu barna strax á eftir Guðrúnu Þuríði sem er yfirlæknir á Reykjalundi, en þar eru þau að sjá mikla endurhæfingarþörf hjá ungu fullorðnu fólki. Sem er með offitu og mikla sjúkdómsbyrði. Þá þurfum við að kíkja til baka og skoða hvernig staðan er hjá börnunum í landinu. Getum við gert eitthvað til að breyta þessari þróun?“ segir Vignir. 

Algengara á landsbyggðinni

Um fjögur þúsund börn á grunnskólaaldri glími við offitu.

„Börn með offitu eru fleiri í dag en fyrir tíu árum síðan. Það er alveg klárt. Við sjáum líka að það eru talsvert fleiri börn á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum ekki alveg af hverju það er, en það er þannig. Það er svipuð þróun og sést alls staðar annars staðar í heiminum,“ segir Vignir. 

Erfitt að snúa þróuninni við seinna

Það þurfi að bregðast við.

„Ef við náum að finna að vandamálið sé í uppsiglingu er miklu auðveldara að eiga við þróunina en þegar við erum orðin fullorðin. Kannski komin á þrítugsaldur og búin að vera með vandamálið og fylgisjúkdóma í fimmtán, tuttugu ár. Þá er miklu erfiðara að snúa þróuninni í rétta átt,“ segir Vignir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×