Lífið

Lýsa enda­lokum vin­sæls frasa: „Megi six-seven hvíla í friði“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frasinn er kenndur við tvo algenga tölustafi.
Frasinn er kenndur við tvo algenga tölustafi. Getty

Frasinn „six-seven“ eða „sex-sjö“ hefur upp á síðkastið verið afar vinsæll meðal yngri kynslóðarinnar. Vinsældir frasans, sem virðist ekki hafa neina sérstaka merkingu, má rekja til mikillar útbreiðslu á samfélagsmiðlum og hafa krakkar og unglingar víða um heim tekið upp frasann sem þykir mikið notaður í þeirra daglega tali. Svo mikið er gripið til frasans að kennurum í skóla nokkrum í Tinglev í Danmörku þótti nóg um og hafa þeir gert tilraun til að lýsa yfir endalokum frasans.

Danska ríkisútvarpið DR greinir frá því í dag að kennurum í þýska skólanum í Tinglev á Jótlandi, skammt frá landamærum Þýskalands, hafi þótt nóg um. Nemendur segi „six-seven“ í tíma og ótíma og frasinn hafi svo gott sem tekið yfir skólastarfið. Til að bregðast við þessu útbjuggu kennarar útprentaða mynd af legsteini með áletruninni „hér hvílir 6 7 (six-seven)“ og hengdu upp á veggjum skólans. „Fæðingardagur“ frasans er á legsteininum miðaður við febrúar 2025 og „dánardagur“ við 20. nóvember 2025.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá umfjöllun fréttastofu CBS um frasann sem hefur tröllriðið öllu undanfarnar vikur og mánuði, ekki síður eftir að myndband af ungum körfuboltaaðdáanda fara með frasann ásamt handahreyfingu náði mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum.

Æpa frasann í kór hvenær sem færi gefst

Hugmyndin á bak við uppátæki skólans er sögð sú að aðeins við myndina af legsteininum megi nemendurnir fara með frasann fræga en hvergi annars staðar í skólanum.

„Nemendurnir hafa sagt þetta í kór á meðan á kennslu stendur mörgum sinnum. Bara ef maður segir sex eða sjö, þá sögðu þau þetta samstundis,“ segir skólastjórinn Carina Heymann við DR. Til dæmis, ef nemendur eru beðnir að fletta á blaðsíðu 106 í kennslubók þá æpi bekkurinn „six-seven“ í kór.

„Bæði kennarar og raunar nokkrir nemendur líka eru orðnir dauðþreyttir á þessu. Það skemmtilega er að margir nemendanna vita ekki einu sinni heldur af hverju þeir eru að segja þetta, þau gera það bara,“ segir Heymann.

Engin sérstök merking

Margir hafa velt vöngum yfir frasanum og hvað í ósköpunum hann á að merkja. Í umfjöllun DR var rætt við Aida Bikic, sálfræðing og lektor við Syddansk háskólann, í leit að svörum en svar sérfræðingsins var nokkuð einfalt: Frasinn þýði ekki nokkurn skapaðann hlut.

„Þetta kemur úr bandarísku lagi sem náði mikilli dreifingu. Maður getur lesið allt mögulegt í þetta. Þetta gæti þýtt „alveg sama“ eða „geggjað“. En þetta er fyrst og fremst til marks um að börn og unglingar taka upp það er í gangi á netinu,“ segir Bikic meðal annars við DR.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.