Viðskipti erlent

Ekkert verður úr TikTok-banni með nýjum samningi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Kínverska fyrirtækið ByteDance á TikTok.
Kínverska fyrirtækið ByteDance á TikTok. EPA

Eigendur TikTok, fyrirtækið ByteDance, hafa undirritað samning við fjárfesta sem tryggir að samfélagsmiðilinn verði áfram opinn fyrir bandaríska notendur. Banninu hefur ítrekað verið frestað.

Í gær tilkynntu eigendur samfélagsmiðilsins starfsfólki sínu að þeir hafi undirritað samning við Bandaríkin og fjárfesta víða frá um áframhaldandi starfsemi þess í Bandaríkjunum. Þrjú fyrirtæki, Oracle, Silver Lake og MGX í Abú Dabí, eiga nú öll fimmtán prósent hvort í fyrirtækinu. ByteDance á 19,9 prósent en fjárfestar sem höfðu áður fjárfest eiga enn sinn hlut, samkvæmt breska ríkisútvarpinu.

Meðal eigenda tæknifyrirtækisins Oracel er Larry Ellison, bandamaður Trumps. Fjölmiðlamógúlinn Rupert Murdoch og sonur hans Lanchan voru sagðir vera meðal fjárfesta.

Vorið 2024 undirritaði Joe Biden, þáverandi Bandaríkjaforseti, lög sem settu bann á samfélagsmiðilinn TikTok. Miðilinn er í eigu ByteDance sem er kínverskt fyrirtæki. Sunnudaginn 19. janúar, degi áður en Trump tók við embætti, tók bannið gildi en með lögunum var ætlunin að fá eigendurna til að selja fyrirtækið til Bandaríkjamanna. 

Klukkustundum síðar var opnað aftur fyrir miðilinn þar sem eigendurnir höfðu fengið loforð frá Trump um að hann myndi heimila starfsemina með forsetatilskipun þegar hann tæki við embætti. 

Banninu var ítrekað frestað en í september sagði Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, að erindrekar frá Kína og Bandaríkjunum hefðu náð saman um frumdrög að samkomulagi um framtíð samfélagsmiðilsins.

TikTok er einn vinsælasti samfélagsmiðillinn í dag en um 170 milljónir notenda eru í Bandaríkjunum. 


Tengdar fréttir

TikTok bann í Bandaríkjunum

TikTok bann tók formlega gildi í Bandaríkjunum í gærkvöld og milljónir notenda komast nú ekki inn á forritið. Verðandi forseti Bandaríkjanna íhugar að blanda sér í málið. 

Nálgast samkomulag um TikTok

Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að erindrekar frá Bandaríkjunum og Kína hefðu náð saman um frumdrög að samkomulagi um framtíð samfélagsmiðilsins TikTok í Bandaríkjunum. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, mun ræða málið við Xi Jinping, kollega sinn í Kína, á föstudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×