Innlent

Telur borgar­stjóra hafa flýtt fjár­mögnun Félagsbústaða vegna prófkjörsbaráttu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar í borgarstjórn gerir alvarlegar athugasemdir við ákvörðun meirihlutans vegna Félagsbústaða.
Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar í borgarstjórn gerir alvarlegar athugasemdir við ákvörðun meirihlutans vegna Félagsbústaða. Vísir/Hjalti

Meirihlutinnn í borgarstjórn hefur ákveðið að veita rúmum tveimur milljörðum til Félagsbústaða á næstu fimm árum. Borgarstjóra er falið að hafa milligöngu um málið. Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins segir tillöguna hafa verið þvingaða fram. Ákveðið hafi verið að hunsa nýja skýrslu starfshóps í málinu.

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkurborgar lagði til á fundi borgarstjórnar í gær að Reykjavík skuldbindi sig til að veita Félagsbústöðum 513 milljónir í árlegt eiginfjárframlag næstu þrjú árin og 263 milljónir á ári næstu tvö ár þar á eftir. Auk þess er lagt til að 300 milljónir verði veittar 2025, með viðauka. 

Vilja tryggja að fleiri eignist heimili

Heiða B. Hilmisdóttir borgarstjóri á að hafa milligöngu um að útfæra næstu skref.

„Við erum að leggja þetta eiginfjárframlag til Félagsbústaða. Bæði til að styrkja rekstrarstöðu Félagsbústaða og líka til að tryggja að við getum fjölgað félagslegu húsnæði og mætt biðlistum fyrir slíka búsetu. Það þarf að tryggja að fleiri eignist heimili,“ segir Heiða. 

Heiða segir gert ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun borgarinnar sem var samþykkt fyrir skömmu og sé hluti af fjárfestingu borgarinnar. .

„Við gerðum ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun borgarinnar en vorum ekki búin að leggja fram tillöguna. Nú er hún komin fram og það er gert ráð fyrir þessu í fjárfestingarhluta fjárhagsáætlunar borgarinnar,“ segir Heiða. 

Heiða segir að ákveðið hafi verið að halda trúnaði um skýrslu verkefnishóps á fundi borgarstjórnar með tillögum um hvernig hægt sé að haga rekstri Félagsbústaða því hún sé í umsagnarferli. 

„Það ríkir alltaf trúnaður um skýrslur þangað til þær eru gerðar opinberar. Það eru nokkrar sviðsmyndir sem þar eru lagðar fram um framtíðartilhögun í rekstri.  

Framsókn gerir alvarlegar athugasemdir

Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar í borgarstjórn gagnrýndi á fundi borgarstjórnar trúnaðir ríkti um skýrsluna sem hafi þegar verið kynnt. Hann gerir alvarlegar athugasemdir við samþykkti meirihlutans. 

„Þetta er alvarlegt mál. Meirihlutinn ákvað einfaldlega að hunsa skýrslu starfshóps sem hefur rýnt rekstur Félagsbústaða undanfarna mánuði um hvernig megi tryggja sjálfbæran rekstur. Meirihlutinn trúnaðarmerkti þessa skýrslu. Felur skýrsluna fyrir borgarstjórn og borgarbúum en þvingar hins vegar fram í borgarstjórn í gær það sem hún kallar pólitískar tillögur um félagsbústaði. Þar á að setja tæpan tvo og hálfan milljarð inn í fyrirtækið til að kaupa íbúðir á frjálsum markaði og yfirbjóða fjölskyldurnar í borginni. Það er engin áhættugreining eða fjárhagslegar forsendur sem eru kynntar. Við vildum fresta málinu, opinbera skýrsluna og ræða stöðu Félagsbústaða út frá henni. Það var ekki hægt því asinn var svo mikill því borgarstjóri er í prófkjöri og þetta var síðasti borgarstjórnarfundur fyrir kjördag,“ segir Einar. 

Heiða segir um gagnrýni minnihlutans í málinu:

„Mér finnst gagnrýni minnihlutans vera sett fram til að dreifa athyglinni frá því stóra skrefi sem Reykjavíkurborg er að taka.“ segir Heiða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×