Skoðun

Einokun og auðhringar

Rætt var um einokun og auðhringa í Silfri Egils 23. október. Viðmælendur Egils Helgasonar voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Var m.a. rætt um baráttu Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins fyrir því, að sett verði lög um auðhringa. Valgerður taldi að nýsett lög um samkeppniseftirlit nægðu og segja mætti, að þar væri um að ræða lög gegn hringamyndun. Samkeppnis­­reglur EES tækju einnig til Íslands. Ingibjörg Sólrún sagði, að nýsett lög um samkeppniseftirlit væru veikari en eldri lög um samkeppnisstofun. Stjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefði veikt lögin á alþingi. Samfylkingin hefði verið andvíg því að veikja lögin. Það væri því alrangt sem haldið væri fram í Morgunblaðinu, að það stæði á Samfylkingunni í þessu efni. Fram kom í þætti Egils að nefndin sem samdi álit og frumvarp um samkeppniseftirlit hefði lagt fram strangara lagafrumvarp heldur en ráðherra og þingmeirihluti stjórnarinnar hefði viljað samþykkja. Samfylkingin hefði viljað samþykkja strangari útgáfuna. Af framangreindu er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið eru á villigötum í málflutningi sínum um einokun og auðhringa. Talað er eins og það vanti lög um þessi mál. En það er nýbúið að setja lög um þetta efni. Í þessum lögum eru heimildir til þess að breyta skipulagi fyrirtækja, ef þau brjóta lög um samkeppnismál. Það eru nægar heimildir í lögunum um aðgerðir gegn fyrirtækjum, ef þau gerast sek um skaðlegar samkeppnishömlur. Hins vegar verða menn að gera sér ljóst að það er ekki bannað að reka stór fyrirtæki ef þau fara að settum reglum. Það kom skýrt fram í Silfri Egils að Framsókn vill ekki setja strangari lög um samkeppnismál en þegar hafa verið sett. Framsókn vill heldur ekki strangari lög um eignarhald á fjölmiðlum en sátt náðist um milli allra flokka í fjölmiðlanefndinni. Svo virðist því, sem forysta Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður tali fyrir daufum eyrum þegar krafist er strangari ákvæða um einokun, auðhringa og fjölmiðla. Raunar er krafa forustu Sjálfstæðisflokksins undarleg þegar haft er í huga, að nýlega er búið að setja lög um samkeppniseftirlit. Sjálfstæðisflokkurinn átti fulla aðild að þeirri lagasetningu og flutti engar tillögur um að ganga lengra en gert var. Svo virðist því sem "krafa" forustu Sjálfstæðisflokksins nú um lög gegn hringamyndun sé sett fram til málamynda,sennilega til þess að þóknast fyrrverandi formanni flokksins.



Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×