Sport

Artest eins og dýr í búri

Ron Artest hefur gefið það út að þó hann hafi lofað bót og betrun eftir leikbannið sitt langa síðasta vetur, muni hann ekki verða eins og engill inni á vellinum á komandi leiktíð, heldur spila eins og "villidýr sem ætti að vera lokað inni í búri." Artest var í banni fyrir að ráðast á áhorfendur á leik Indiana Pacers og Detroit Pistons í fyrra, en hóf leik með Indiana á undirbúningstímabilinu í nótt, þegar Indiana lá fyrir New Jersey Nets. "Ég mun halda áfram mínum taumlausa og ákafa leik inni á vellinum, það er á hreinu. Ég mun spila eins og dýr sem á að vera lokað inni í búri," sagði Artest. "Ég efast samt um að fólk verði kastandi hlutum í mig í þetta skiptið og sömuleiðis efast ég um að ég muni bregðast við eins og ég gerði í Detroit forðum. Annars læt ég dómarana um að ákveða hlutina þegar ég mæti til leiks, en ég mun halda mínum leikstíl," sagði Artest, sem var kosinn varnarmaður ársins í deildinni árið 2004 og hefur nú þyngt sig um 6 kíló af vöðvamassa fyrir átökin í vetur. "Ég er 260 pund núna, en ég vildi að ég væri 280," sagði Artest. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×