Sport

Einbeiting er lykillinn að gengi Reading

Brynjar Björn og félagar opna ekki kampavínið fyrr en úrvalsdeildarsætið er í höfn
Brynjar Björn og félagar opna ekki kampavínið fyrr en úrvalsdeildarsætið er í höfn NordicPhotos/GettyImages

Íslenski landsliðsmaðurinn Brynjar Björn Gunnarsson hjá Reading, segir í samtali við BBC í dag að andlegur styrkur leikmanna liðsins og einbeiting séu meginástæður þess að liðið er komið langt með að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni að ári, en sigur gegn Leicester á laugardaginn tryggir liðinu úrvalsdeildarsætið.

"Það hljómar kannski undarlega, en við höfum virkilega þurft að sýna andlegan styrk okkar þegar best hefur gengið í ár. Þegar allir byrjuðu að tala um það í desember og janúar að þetta yrði árið sem Reading færi upp, höfðu leikmenn liðsins andlegan styrk til að einbeita sér að einum leik í einu og halda fókus, því í fótbolta þýðir ekkert að tapa einbeitingu og fara að hugsa lengra - því þá lenda menn mjög fljótlega í vandræðum," sagði Brynjar Björn og bætti við að enginn myndi fagna of snemma í herbúðum liðsins.

"Við förum ekki að fagna einu eða neinu á miðvikudag eða föstudag, við höldum upp á það ef við tryggjum okkur úrvalsdeildarsætið eftir leikinn við Leicester á laugardaginn. Ef það tekst verður stefnan klárlega sett á að vinna deildina, því það yrði frábært fyrir stuðningsmenn liðsins sem hafa beðið lengi eftir einhverju svona. Við höfum svo bara áhyggjur af úrvalsdeildinni þegar að því kemur, ef að því kemur," sagði Brynjar, en Reading hefur aldrei í sögunni leikið í efstu deild.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×