Sport

Lætur blaðamenn heyra það

Thierry Henry er orðinn leiður á gagnrýni fjölmiðla
Thierry Henry er orðinn leiður á gagnrýni fjölmiðla

Thierry Henry, fyrirliði Arsenal og framherji franska landsliðsins, lét blaðamenn heyra það í dag fyrir að gagnrýna félaga sinn Franck Ribery fyrir frammistöðu sína í jafnteflinu gegn Sviss. Henry á von á mjög erfiðum næsta leik gegn Suður-Kóreu.

Miklar vonir voru bundnar við Ribery í leiknum gegn Sviss, en honum tókst ekki að standa undir þeim og var hann gagnrýndur harðlega í frönskum fjölmiðlum.

"Þið vilduð fá hann í byrjunarliðið og svo rakkið þið hann niður loksins þegar honum er gefið tækifæri. Það þýðir ekkert að hengja alla ábyrgðina á hann, enda er alltaf erfitt að spila sinn fyrsta stóra leik fyrir landsliðið," sagði Henry reiður við blaðamenn.

"Það verður allt annað fyrir okkur að spila við Kóreumennina heldur en Svisslendinga, því Kóreumennirnir spila miklu opnari leik og byggja spil sitt á einni eða tveimur snertingum. Þetta verður sannarlega erfiður leikur, en ég á von á að hann verði betri en sá fyrsti," sagði Henry.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×