Körfubolti

Tap hjá Iverson í fyrsta leik

Allan Iverson stóð sig vel í sínum fyrsta leik fyrir Denver.
Allan Iverson stóð sig vel í sínum fyrsta leik fyrir Denver. MYND/Getty

22 stig og tíu stoðsendingar frá Allen Iverson dugðu ekki fyrir Denver í nótt þegar liðið beið í lægri hlut fyrir Sacramento í NBA-deildinni, 101-96. Þetta var fyrsti leikur Iverson fyrir sitt nýja lið. 15 leikja sigurhrinu Pheonix lauk ennfremur í nótt.

Iverson þótti koma vel frá leik sínum í nótt en nokkuð er liðið síðan hann spilaði síðast. George Karl, þjálfari Denver, var mjög ánægður með frammistöðu nýjasta lærisveins síns.

"Af leikmanni sem hefur ekki spilað í nokkrar vikur, þá fannst mér Iverson líta fjári vel út. Mér þykir bara leitt að hafa ekki sigrað í hans fyrsta leik ," sagði Karl, en Iverson hitti úr níu af 15 skotum sínum. Carmelo Anthony, hinn stjörnuleikmaður Denver, lék ekki með liði sínu í gær vegna leikbanns. Alls voru átta leikmenn liðsins fjarverandi vegna leikbanna og meiðsla.

Iverson sagði sjálfur að honum hefði liðið mjög vel á vellinum. "Áhorfendurnir sungu nafnið mitt og hvöttu mig til dáða. Það var mjög góð tilfinning. Ég er nokkuð frá mínu besta formi en um leið og ég finn það aftur, auk þess sem við endurheimtum marga leikmenn úr banni og meiðslum, eigum við eftir að verða frábært lið. Ég veit það," sagði Iverson.

Gilbert Arenas skoraði 53 stig í 144-139 sigri Washington á Pheonix í nótt. Úrslitin réðust í framlengingu í frábærum leik þar sem sóknarboltinn var í fyrirrúmi. Steve Nash skoraði 42 stig og gaf 12 stoðsendingar fyrir heimamenn, sem höfðu fram að gærkvöldinu unnið 15 leiki í röð.

Af öðrum leikjum gærkvöldsins bar hæst að Utah tapaði fyrir Charlotte og Lakers sigraði New Jersey örugglega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×