

Ál – ekkert mál fyrir Jón og Pál
Þegar forysta flokksins kúventi í Kárahnjúkamálinu á sínum tíma var ætlunin greinilega sú að sýna fram á að flokkurinn væri „stjórntækur", þ.e. ætti auðvelt með að taka þátt í þeim málamiðlunum sem fylgir stjórnarþátttöku. Þetta yrði Samfylkingin að gera, annars kæmist hún ekki í stjórn. Tækifærið kom ekki 2003 en hins vegar kom það núna. Miðað við stöðu mála virðist Samfylkingarforystan hafa hugsað málið svona fyrir síðustu kosningar: Flöggum plagginu Fagra Íslandi og segjumst vilja stóriðjustopp í 4-5 ár á meðan náttúruverðmæti landsins eru könnuð. Þannig getum við haldið hjá okkur því umhverfisverndarfólki sem annars fer til grænu flokkanna. Eftir kosningar mun fólk sýna því skilning að við fáum ekki allt okkar fram í stjórnarsáttmálanum, svo sem dýrar og tímafrekar náttúrfarsrannsóknir. Þá gumum við af rammaáætluninni sem hvort eð er átti að vinna að og lofum að snerta ekki þau svæði sem hvort eð er þarf ekki að fara inn á á kjörtímabilinu. Síðan verður vonandi hægt að draga endanlegar ákvarðanir iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra um álver og virkjanir í tvö ár og síðan skilgreinum við þessi tvö ár sem „stóriðjuhlé" þótt stanslaus fréttaflutningur af stóriðjukapphlaupinu dynji allan tímann. Á þessu tímabili sýnum við fram á hve stjórntæk við erum. Eftir tvö ár: „Den tid, den sorg."
Ef Samfylkingarforystan hefur hugsað svona er skiljanlegt hvers vegna Ingibjörg Sólrún og Þórunn Sveinbjarnardóttir kúvenda úr því að segja að stjórnvöld eigi að stjórna ferðinni, yfir í það að stjórnvöld eigi ekkert að skipta sér af því sem sjálfstæð fyrirtæki og sveitarstjórnir séu að bralla. Svona rétt eins og Landsvirkjun komi eigendum sínum, þjóðinni, ekkert við. Fjölmiðlamenn leggja sig alla fram um að kafa ofan í valdabrölt og kapphlaup álrisa og sveitarstjórna en enginn hugar að þeim náttúruverðmætum sem fórna þarf fyrir alla þessa stóriðju, s. s. norðaustan Mývatns. Það virðist ekki valda yfirmönnum Norsk Hydro áhyggjum þótt þeir hafi engan orkukaupasamning í hendi - þeir þekkja þá forsögu virkjana á Íslandi að mat á umhverfisáhrifum sé bara formsatriði. Ef við gefum sveitarstjórnarmönnum samheitið Jón og Páll í staðinn fyrir Pétur og Pál, þá virðast þeir heldur ekki vera að pæla í því hvernig eigi að útvega orkuna og reisa virkjanamannvirki í ótal öðrum sveitarfélögum en þeirra eigin. Nei, ál er ekkert mál fyrir Jón og Pál, jafnvel þótt einföld samlagning sýni, að þegar þau álfyrirtæki, sem nú eru á fullri ferð hér á landi, hafa fengið alla þá orku sem þau þurfa til að reka álver af minnstu hagkvæmnisstærð, sem er 500 þúsund tonn á ári fyrir hvert álver - þá krefst sú stóriðja allrar virkjanlegrar vatns- og hveraorku landsins og Fagra Ísland farið fyrir lítið. Og þá er eftir að uppfylla drauma virkjanafíkla um orkusölutil Skotlands og til netþjónabúa og vetnisframleiðslu fyrir bíla og skip. Já, þjóðin er í „ég fer í fríið"-skapi, 83 prósent ánægð með nýju stjórnina í skoðanakönnun. Aðalatriðið er að virkja og selja orku sem hraðast og óðast þótt álverin öll gefi aðeins vinnu fyrir 2% vinnuafls þjóðarinnar og fórnað sé náttúruverðmætum sem í ímynd þjóðarinnar má meta til þúsunda milljarða. Fagra Ísland orðið að Magra Íslandi. Þórunn stóð með sóma í lappirnar við Kárahnjúka og á ævarandi þökk fyrir það. Vonandi fær hún ekki í hnén eins og Valgerður við að hitta álfurstana.
Höfundur er formaður Íslandshreyfingarinnar.
Skoðun

120km hraði á Keflavíkurveginum og netsölur með áfengi
Jón Páll Haraldsson skrifar

Lausnin liggur fyrir – Landspítali þarf að stíga skrefið
Sandra B. Franks skrifar

Auðbeldi SFS
Örn Bárður Jónsson skrifar

Skjárinn og börnin
Daðey Albertsdóttir,Silja Björk Egilsdóttir,Skúli Bragi Geirdal skrifar

„Er stjúpmamma þín vond eins og í Öskubusku?“
Hafdís Bára Ólafsdóttir skrifar

Af hverju er Framsóknarfólk hamingjusamast?
Árelía Eydís Guðmundsdóttir skrifar

Norska leiðin hefur gefist vel – í Póllandi
Heiðrún Lind Marteinsdóttir skrifar

Opið hús fyrir útvalda
Björn Brynjúlfur Björnsson skrifar

Af hverju hræðist fólk kynjafræði?
Eydís Ásbjörnsdóttir skrifar

Hlustum á okkar landsliðskonur - sýnum Ísrael rauða spjaldið
Hrönn G. Guðmundsdóttir,Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar

Hópnauðganir/svartheimar!
Davíð Bergmann skrifar

Valdið og samvinnuhugsjónin
Kjartan Helgi Ólafsson skrifar

NPA breytti lífinu mínu
Sveinbjörn Eggertsson skrifar

Hefur þú tilkynnt um ofbeldi gegn barni?
Alfa Jóhannsdóttir skrifar

Gildi kærleika og mannúðar
Toshiki Toma skrifar

Hvernig tryggjum við samkeppnishæfni þjóðar?
Jón Skafti Gestsson skrifar

Í minningu Frans páfa - sem tók sér nafn verndardýrlings dýra og náttúru
Árni Stefán Árnason skrifar

Flottu kjötauglýsingarnar í blöðunum...
Ole Anton Bieltvedt skrifar

Grafarvogsgremjan
Þorlákur Axel Jónsson skrifar

Er ég að svindla? – Um sambýli manns og gervigreindar í sköpun og þekkingu
Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar

Fjármögnuðu stríðsvél Rússlands
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Hugleiðingar á páskum
Ámundi Loftsson skrifar

Gremjan í Grafarvogi
Davíð Már Sigurðsson skrifar

Samlokan á borðinu: Hugleiðingar á föstudeginn langaum sjónvarpsþættina Adolescence
Skúli Ólafsson skrifar

Móttaka skemmtiferðaskipa - hlustað á íbúa
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skrifar

Námsfærni nemenda í íslenskum skólum: Eigum við að lækka rána?
Sigríður Ólafsdóttir skrifar

Þegar mannshjörtun mætast
Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson skrifar

Horft til einkunna og annarra þátta við innritun í framhaldsskóla
Guðmundur Ingi Kristinsson skrifar

Kristján á Sprengisandi lendir í ágjöf
Björn Ólafsson skrifar