Körfubolti

Allen og Nowitzki stálu senunni

Ray Allen var sjóðandi heitur fyrir Seattle í nótt. Hér sjást liðsfélagar hans fagna sínum manni eftir leikinn gegn Utah í nótt.
Ray Allen var sjóðandi heitur fyrir Seattle í nótt. Hér sjást liðsfélagar hans fagna sínum manni eftir leikinn gegn Utah í nótt. MYND/Getty

Dirk Nowitzki hjá Dallas og Ray Allen hjá Seattle voru menn næturinnar í NBA-boltanum. Nowitzki skoraði 43 stig, það mesta sem hann hefur skorað á leiktíðinni, þegar Dallas lagði Indiana af velli en Allen gerði enn betur og setti niður 54 stig í sigri Seattle á Utah. Allen hefur aldrei skorað meira á sínum ferli.

Úrslitin í báðum þessum leikjum réðust eftir framlengingu og var það þar sem Nowitzki og Allen tóku sérstaklega af skarið og tryggðu liðum sínum sigur. "Hann var magnaður. Ég veit ekki hvort það er hægt að spila mikið betur," sagði Jerry Sloan, þjálfari Utah, um frammistöðu Allen eftir leikinn. Auk stiganna 54 var Allan með 10 fráköst og fimm stoðsendingar, með rúmlega 50% nýtingu utan af velli og 100% nýtingu á vítalínunni. Seattle vann leikinn 122-114.

Spennan var ekki síðri í leik Dallas og Indiana þar sem fyrrnefnda liðið hafði loks sigur, 115-113, eftir framlenginu. Eins og áður segir var hinn þýski Nowitzki maðurinn á bakvið sigur Dallas, sem nú hefur aðeins tapað einu sinni í síðustu 17 leikjum.

Indiana hafði verið með sex stiga forystu þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en með mikilli baráttu náði Dallas að koma sér aftur inn í leikinn. Það var síðan Nowitzki sem innsiglaði sigurinn í framlenginunni með því að setja niður tvö vítaskot þegar fimm sekúndur voru eftir.

John Terry bætti við 30 stigum fyrir Dallas en hjá Indiana var Jermaine O'Neal atkvæðamestur með 26 stig. Dallas er með besta vinningshlutfallið í deildinni, hefur unnið 30 leiki en tapað átta.

Úrslit í öðrum leikjum næturinnar voru eftirfarandi:

LA Lakers - Orlando   109-106

Miami - Golden State   118-96

Houston - Denver   90-86

Minnesota - Memphis   116-110

Sacramento - Portland   97-85

Washington - NO/Oklahoma   97-104

Detroit - Atlanta   93-99

Toronto - Boston   95-86

Milwaukee - Philadelphia   97-110




Fleiri fréttir

Sjá meira


×