Fótbolti

Eiður Smári hefur alltaf þurft að berjast fyrir sínu

NordicPhotos/GettyImages

Arnór Guðjohnsen segir að sonur sinn Eiður Smári sé ekkert óvanur því að fá harða samkeppni um stöður í þeim liðum sem hann hefur spilað með á ferlinum og ítrekar að Barcelona hafi ekki borist kauptilboð í leikmanninn.

Í viðtali við breska fjölmiðla í dag segir Arnór að Eiður sé staðráðinn í að berjast fyrir sínu hjá Barcelona þrátt fyrir að félagið hafi fest kaup á Thierry Henry á dögunum. "Þessi kaup hafa vakið upp spurningar, ekki aðeins hjá Eiði heldur fleiri mönnum í liðinu. Eiður þurfti alltaf að berjast fyrir sæti sínu hjá Chelsea og það er alveg eins hjá Barcelona - sama hvort menn eru að koma eða fara frá félaginu. Hann er staðráðinn í að standa sig og æfir af krafti. Hann er bara búinn að vera á Spáni í eitt ár og getur því aðeins orðið betri. Þeir hjá Barcelona segja alltaf að ef menn séu ánægðir með sitt hlutskipti hjá félaginu sé þeim velkomið að vera áfram," sagði Arnór en bætti við að England gæti komið til greina í framtíðinni.

"England kæmi auðvitað til greina ef hann færi frá Barcelona," sagði Arnór og benti á að Eiður hefði t.a.m. átt gott samstarf við Sam Allardyce þegar hann var hjá Bolton á árum áður. "Eiður lítur upp til Sam og undir hans stjórn varð hann að þeim leikmanni sem hann er í dag. Sam hefur líka alltaf sagt að hann sé einn besti leikmaður sem hann hefur þjálfað," sagði Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×