Netsamfélög á borð við MySpace hafa náð gífurlegum vinsældum. Nýjasta æðið er Facebook.
Við þurfum ekkert að fara út lengur. Við hittum vinina á netinu. Spjöllum á spjallrásum, skiptumst á skoðunum á bloggi, látum í okkur heyra og sjá hjá netsamfélögum á borð við MySpace, Ringo og Flickr.
Nýjasta æðið er netsamfélagið Facebook eða „Andlitsbók". Þetta samfélag er keimlíkt MySpace, þar sem gamanið gengur út á að safna vinum og kunningjum í misjöfnum tilgangi. Ýmist til að eignast vini, stækka tengslanetið eða jafnvel finna ástina einu sönnu.
Á Andlitsbókinni er hægt að koma fyrir myndum og skrifa skilaboð, en þar kemur líka fram hvernig þú tengist viðkomandi vini. Síðan er mjög lík MySpace en er með minni áherslu á tónlist og myndbönd.
Andlitsbókin er einföld í notkun og hentar ágætlega fyrir þá sem vilja stækka tengslanetið á vefnum enn frekar. http://www.facebook.com.