Heyrst hefur að Apple-tölvufyrirtækið og bílaframleiðandinn Volkswagen séu í viðræðum um að búa til iCar sem myndi vera búinn ýmsum tæknikostum frá Apple. Talsmaður Volkswagen staðfesti að framkvæmdastjórar fyrirtækjanna hefðu hist í Kaliforníu á dögunum og kastað á milli sín hugmyndum en ekkert væri ákveðið enn. Í fjármálaritinu Capital í Þýskalandi var haft eftir markaðsfræðingum að smábíll með tæknibúnaði frá Apple myndi vekja mikinn áhuga hjá ungu fólki og því líklegur til að seljast vel.
Apple er nú þegar í samstarfi við Volkswagen og aðra bílaframleiðendur sem bjóða innbyggðan tengil fyrir iPod spilarann vinsæla sem Apple framleiðir.