Fótbolti

Benítez: Svona getum við spilað

Elvar Geir Magnússon skrifar
Rafael Benítez.
Rafael Benítez.

Athygli vakti að Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, stökk ekki bros á vör á bekknum þó hans menn væru að keyra yfir Besiktas í kvöld. Liverpool vann 8-0 sigur sem er stærsti sigur í sögu Meistaradeildarinnar.

„Þetta var aðeins fyrsta skrefið af þremur. Við vissum að við þyrftum að vinna alla þrjá leikina sem eftir væru. Nú erum við búnir að vinna einn og tveir leikir eru enn eftir," sagði Benítez.

„Við sýndum magnaða spilamennsku í kvöld og sýndum fólki hvernig við getum spilað. Meistaradeildin er gríðarlega erfið keppni og manni er refsað fyrir fyrstu mistök. Það var gríðarlega mikilvægt að ná að brjóta ísinn," sagði Benítez.

Peter Crouch hefur verið úti í kuldanum á þessu tímabili en hann sýndi það í kvöld að hann á heima í byrjunarliðinu. Crouch átti stórleik og skoraði tvö af mörkunum.

„Ég lít á þetta sem sigur liðsheildarinnar. Yossi skoraði þrjú og Babel og Crouch spiluðu einnig frábærlega."

Þetta var fyrsti sigur Liverpool í keppninni. Liðið er með fjögur stig en fyrir ofan eru Marseille með sjö stig og Porto með átta. Tvær umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×