Fótbolti

Stuðningsmennirnir sitja í súpunni

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez hefur farið þess á leit við Knattspyrnusamband Evrópu að það endurskoði heimavallarbannið sem það setti á Atletico Madrid.

Atletico var sett í tveggja leikja bann eftir ólæti stuðningsmanna liðsins og því stefnir í að leikur liðsins gegn Liverpool í næstu viku þurfi að fara fram á hlutlausum velli í 300 km fjarlægð frá Madrid.

Benitez segir að bannið komi illa niður á stuðningsmönnum liðsins sem séu búnir að eyða háum fjárhæðum til ferðalagsins til Spánar.

"Stuðningsmenn okkar eru tryggir og leggja á sig ómælt erfiði til að fylgja okkur á útivelli. Því hef ég miklar áhyggjur af þessum úrskurði. Ég skil vel að Uefa vilji bregðast hart við í þessum máli, en úrskurðurinn kemur bara allt of seint. Það er ekki sanngjarnt að valda stuðningsmönnunum svona miklum vandræðum," sagði Benitez.

Atletico hefur frest fram á föstudag til að áfrýja úrskurði Uefa, en forseti félagsins hefur þegar lýst því yfir að hann muni ekki sætta sig við hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×