Fótbolti

Benitez ósáttur við dómgæsluna

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez setur spurningamerki við ákvörðun dómarans um að bæta við fjórum mínútum af uppbótartíma í leik Liverpool og Chelsea í kvöld. Chelsea jafnaði leikinn á lokaandartaki leiksins með sjálfsmarki John Arne Riise.

"Maður getur ekki verið annað en ósáttur með svona lagað. Uppbótartíminn í fyrri hálfleik var ein mínúta, en svo bætir dómarinn við fjórum mínútum í þeim síðari og það voru dæmdar tvöhundruð aukaspyrnur í leiknum. Ég er mjög vonsvikinn," sagði Spánverjinn.

"Við áttum fleiri færi í leiknum. Þeir eru með gott lið og allt það, en við fengum fleiri færi. Það skiptir hinsvegar ekki máli í fótbolta - þú verður að nýta færin þín."

Hann var spurður hvort leikur Chelsea við Manchester United um helgina gæti komið til með að virka Liverpool í hag.

"Já, það gæti hugsast, en við verðum að spila þessar 90 mínútur á fullu. Við börðumst mjög vel í dag og verðum að gera það aftur í útileiknum," sagði Benitez.

Hann segist hafa grunað að dómgæslan yrði hans mönnum ekki endilega í hag þegar hann sá að Konrad Plautz fengi leikinn í kvöld.

"Já, ég er ósáttur við dómgæsluna. Það er ekki í fyrsta skipti. Við vissum að þetta yrði erfitt alveg eins og gegn Marseille," sagði Benitez og vísaði til þess að Plautz dæmdi tapleik Liverpool gegn Marseille þann 2. október sl.

"Það er ekki hægt að kenna dómaranum um tapið, en það er erfitt að sjá af hverju dómarinn bætir við einni mínútu í fyrri hálfleik og fimm í þeim síðari."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×