Fótbolti

Benitez saknar ekki Mourinho

NordcPhotos/GettyImages

Rafa Benitez stjóri Liverpool segir að það sé eigandinn Roban Abramovich sem sé lykilmaðurinn á bak við velgengni Chelsea en ekki stjórarnir Jose Mourinho og Avram Grant.

Liverpool tekur á móti Chelsea í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á Anfield annað kvöld. Þetta er í þriðja sinn sem liðin mætast á þessu stigi keppninnar og hafa þeir rauðu farið með sigur af hólmi í bæði skiptin.

Þeim Benitez og Jose Mourinho var aldrei sérlega vel til vina, en Benitez segir lið Chelsea vera mjög keimlíkt því sem Mourinho stýrði á sínum tíma.

"Það er Abramovich sem er lykilmaðurinn í þessu Chelsea-liði. Það er enginn munur á Chelsea síðan Grant tók við nema helst blaðamannafundirnir. Ég horfði á leik Chelsea gegn Everton og þeir spila alveg eins og þeir gerðu undir stjórn Mourinho," sagði Benitez.

"Ég vil helst ekki tala um Avram Grant. Ég ber mikla virðingu fyrir honum því hann stendur sig vel. Ég hef ekkert slæmt um hann að segja. Blaðamenn sakna kannski Jose Mourinho, en ég sakna hans ekkert. Ég hef nóg að gera í Liverpool. Það eru líka leikmennirnir sem hafa úrslitaþýðingu í svona leikjum, ekki stjórarnir," sagði Benitez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×