Körfubolti

NBA í nótt: Lakers tapaði aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Courtney Lee fer hér framhjá Derek Fisher í leiknum í nótt.
Courtney Lee fer hér framhjá Derek Fisher í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images
LA Lakers tapaði í nótt sínum öðrum leik í röð og sínum fimmta leik á tímabilinu er liðið tapaði fyrir Orlando, 106-103.

Kobe Bryant gerði allt sem hann gat til að koma í veg fyrir tapið en það dugði ekki til. Hann skoraði 41 stig og átti möguleika á að jafna metin með síðasta skoti leiksins en það geigaði.

Dwight Howard skoraði átján stig í leiknum og hitti úr átta af ellefu vítum sínum í fjórða leikhluta sem reyndist afar mikilvægt. Jameer Nelson var stigahæstur hjá Orlando með 27 stig.

Derek Fisher var næststigahæstur hjá Lakers með 27 stig.

Orlando hefur nú á síðustu þremur dögum unnið bæði San Antonio Spurs og LA Lakers sem eru með sterkustu liðum deildarinnar.

Golden State vann Charlotte, 110-103, þar sem Jamal Crawford gerði sér lítið fyrir og skoraði 50 stig fyrir Golden State.

Houston vann Minnesota, 109-102. Tracy McGrady var með 23 stig en Minnesota tapaði þar með sínum tólfta leik í röð.

San Antonio vann Toronto, 107-97. Tony Parker átti frábæran leik, skoraði 24 stig, gaf tíu stoðsendingar og tók átta fráköst.

Indiana vann Philadelphia 95-94, þar sem TJ Ford setti niður sigurkörfuna þegar tæpar fjórar sekúndur voru til leiksloka.

Chicago vann Utah, 106-98. Ben Gordon skoraði 26 stig fyrir Chicago og Derrick Rose skoraði 24, þar af tíu í fjórða leikhluta. Þetta var fimmti sigur liðsins í röð á heimavelli.

Miami vann New Jersey, 106-103, þar sem Dwyane Wade skoraði 43 stig fyrir Miami.

New Orleans vann Sacramento, 99-90. Chris Paul var með 34 stig og níu stoðsendingar en þetta var ellefti sigur New Orleans í síðustu þrettán leikjum sínum.

Milwaukee vann LA Clippers, 119-85. Richard Jefferson skoraði 22 stig fyrir Milwaukee sem vann sinn fjórða leik af síðustu fimm.

Phoenix vann Denver, 108-101. Steve Nash fór á kostum á lokamínútum leiksins er hann skoraði átta stig í röð. Hann var alls með sextán stig og ellefu stoðsendingar en þetta var áttundi sigur Phoenix á Denver á heimavelli. Chauncey Billups var með átján stig og átta stoðsendingar fyrir Denver.

Staðan í deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×