Fótbolti

Enn reiknað með 3-4 vikum í meiðsli Eiðs Smára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári fagnar marki með Barcelona fyrr á leiktíðinni.
Eiður Smári fagnar marki með Barcelona fyrr á leiktíðinni. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen gekkst undir frekari læknisskoðanir í Barcelona í dag vegna þeirra meiðsla sem hann hlaut í landsleik Íslands og Makedóníu í fyrrakvöld.

Eiður er með rifinn lærvöðva en hann þurfti að fara af velli á 81. mínútu. Eins og sagt var frá í gær verður hann líklega frá í 3-4 vikur en Eggert Skúlason, talsmaður Eiðs, sagði að erfitt væri að koma með nákvæma spá um batahorfur.

„Það fer alfarið eftir því hvernig meiðslin munu bregðast við meðferðinni, þetta gæti tekið skemmri tíma eða lengri. Þrátt fyrir alla þá tækni sem hægt er að beita í slíkum fræðum geta menn ekki verið vissir," sagði Eggert.

Þetta er vitanlega mikið áfall fyrir Eið sem var nýbúinn að vinna sér sæti í byrjunarliði Börsunga eftir að hafa mátt sætta sig við langa og erfiða bekkjarsetu.

„Það er þó enginn bilbug að finna á stráknum. Hann kemur sterkur til baka," bætti Eggert við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×