Körfubolti

Mikilvægur leikur hjá Helenu og félögum

Helena Sverrisdóttir í leik með TCU.
Helena Sverrisdóttir í leik með TCU. Mynd/TCU/Keith Robinson
Helena Sverrisdóttir og liðsfélagar hennar í TCU-háskólaliðinu í körfubolta mæta Utah í nótt í einum mikilvægasta leik tímabilsins til þessa.

TCU er sem stendur í öðru sæti Mountain West-deildarinnar með tíu sigra í tólf leikjum en Utah hefur unnið alla tólf leiki sína til þessa.

TCU verður því að vinna liðið í nótt og treysta á að liðið misstígi sig að minnsta kosti einu sinni til viðbótar á tímabilinu til að vinna deildarmeistaratitilinn.

TCU hefur hins vegar verið í góðu formi og unnið fimm útileiki í röð og alls sjö leiki í röð. Liðið hefur þar að auki unnið níu af síðustu tíu leikjum sínum. Þáttur Helenu í þessu góða gengi liðsins er ekki lítill en hún var valin leikmaður vikunnar í deildinni í tvær vikur í röð.

Helena hefur í þessum sjö sigurleikjum skorað 12,1 stig, tekið 6,9 fráköst og gefið 2,7 fráköst að meðaltali.

Ef TCU vinnur leikinn mun það bæta félagsmet með því að vinna sjötta útileik sinn í röð.

Utah hefur ekki tapað átján leikjum í röð og er það þriðji besti árangur allra liða í 1. deild NCAA-körfuboltans.

Leikurinn hefst klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma og má nálgast upplýsingar hér hvernig má fylgjast með leiknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×