Fótbolti

Lineker segir United að varast Henry

Elvar Geir Magnússon skrifar
Thierry Henry spjallar við Lionel Messi á æfingu Barcelona í gær.
Thierry Henry spjallar við Lionel Messi á æfingu Barcelona í gær.

Gary Lineker, fyrrum sóknarmaður Barcelona, hefur varað Manchester United við því að Thierry Henry gæti orðið erfiður viðureignar í kvöld. Þá mætast Barcelona og United í fyrri undanúrslitaleik sínum í Meistaradeildinni.

„Í stóru leikjunum fær maður tækifæri til að svara gagnrýni og sanna þig fyrir öðrum og jafnvel þér sjálfum. Form getur komið eins fljótt og það getur horfið," sagði Lineker.

Barcelona hefur átt erfitt tímabil og þetta er eina keppnin sem liðið á möguleika að vinna á þessu tímabili. Henry hefur alls ekki fundið sig í búningi Barcelona síðan hann var keyptur á rúmar sextán milljónir punda í fyrra.

„Það vita það allir að Henry hefur frábæra hæfileika. Því hefur Manchester United meðal annars fengið að kynnast síðustu ár," sagði Lineker.

Manchester United fór illa út úr einvígi sínu við AC Milan í undanúrslitum í fyrra en Milan vann síðan keppnina. Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að sitt lið sé mun betra nú en þá.

„Við vorum einfaldlega ekki tilbúnir í þetta í fyrra. Ég er hinsvegar mun bjartsýnni núna. Ég held að sigurvegarinn úr þessu einvígi eigi virkilega góðan möguleika í úrslitaleiknum," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×