Fótbolti

Sir Alex: Ákvörðun verður tekin á síðustu stundu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Jonny Evans gat ekki æft með Manchester United í kvöld.
Jonny Evans gat ekki æft með Manchester United í kvöld.

Sir Alex Ferguson segir að ákvörðun varðandi varnarmennina John O'Shea og Jonny Evans verði tekin rétt fyrir leik Manchester United gegn Inter. Óvíst er hvort leikmennirnir verði orðnir klárir í slaginn en þeir eiga við meiðsli að stríða.

Varnarlína United er stórt spurningamerki fyrir leikinn. Nemanja Vidic er í leikbanni og þá eru Gary Neville, Wes Brown og Rafael allir meiddir og ferðuðust ekki með til Ítalíu.

Evans og O'Shea eru báðir í leikmannahópnum en eru að glíma við lítilsháttar meiðsli og æfðu ekki með liðinu í kvöld. O'Shea tók þó einhvern þátt í æfingunni en Ferguson ætlar ekki að ákveða það fyrr en rétt fyrir leik hvort hann ætli að láta þá tvo spila leikinn.

Þrátt fyrir meiðslavandræðin var Ferguson léttur á blaðamannafundi í dag. „Ég get alveg notað Dimitar Berbatov sem aftasta varnarmann," sagði Ferguson í gríni. „Ég vona að annar þeirra geti allavega leikið. Ég neita því ekki að þetta er erfið staða."

O'Shea er talinn líklegri af þeim tveimur til að spila. Ef hvorugur verður úrskurðaður leikfær mun Sir Alex aðeins hafa fjóra varnarmenn sem eru klárir. Þar af eru unglingarnir Fabio og Richard Eckersley sem aldrei hafa leikið Evrópuleik. Einn líklegasti möguleikinn er talinn á að Darren Fletcher verði notaður í hægri bakverðinum og O'Shea (ef hann verður klár) verði með Rio Ferdinand í miðverðinum. Patrice Evra verður í vinstri bakverðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×