Skoðun

Vöndum til verka

Ýmsar af þeim breytingum sem nú eru ræddar á grundvallarskipan samfélagsins eru góðra gjalda verðar. Það er ennfremur eðlilegt að við núverandi aðstæður séu margir hugsi yfir því hvort leita megi ástæðna fyrir stöðunni í grunngerð íslensks samfélags. En það er mikilvægt að vandað sé vel til umræðna og að innantómir frasar séu ekki látnir duga.

Það er hæpin skýring á núverandi efnahagskreppu að þar hafi grundvallarreglur samfélagsins haft mikil áhrif. Þó er ekki þar með sagt að ekki sé ástæða til að endurskoða stjórnarskrána og kosningalögin. Hins vegar fer illa saman þegar pólitískri heift, vonbrigði með stöðu efnahagsmála og óvissu í stjórnmálum er blandað út í slíkar umræður.

Þess vegna er það raunverulegt áhyggjuefni að minnihlutastjórn VG og Samfylkingar leggi sérstaka áherslu á slíkar breytingar á þeim örskamma tíma sem hún er við völd. Raunar hefur þessi asi vakið áhyggjur alþjóðlegra stofnana sem telja slík vinnubrögð sérstaklega varhugaverð enda er beinlínis mælt gegn því í alþjóðlegum sáttmálum að breyta kosningareglunum svo skömmu fyrir kosningar. Má þar nefna Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) sem sér nú sérstaka ástæðu til þess að fylgjast grannt með framkvæmd kosninga á Íslandi. Það er nefnilega þannig að þegar slíkar stofnanir, sem vinna að því að tryggja að framgangur lýðræðisins sé eðlilegur, fá fregnir af því að stjórnvöld hafi uppi áform um breytingar á leikreglum lýðræðis skömmu fyrir kosningar, þá vekur það efasemdir um að réttilega sé staðið að málum og allra sjónarmiða sé gætt.

Ísland hefur fram að þessu ekki verið í þeim flokki sem alþjóðlegir kosningasérfræðingar hafa sérstakar áhyggjur af. Hvað sem segja má um íslenskt samfélag þá er þetta nýmæli. Þess vegna hljótum við að staldra við og vara við þeim flýti sem minnihlutastjórnin hyggst beita við að koma þessum breytingum í gegn. Breytingar á reglum lýðræðisins þurfa að fá yfirvegaða umræðu og nauðsynlegt er að allur þorri manna hafi ráðrúm til þess að móta sér skoðun á slíkum breytingum.

Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.


























Skoðun

Sjá meira


×