Fótbolti

Henry: Væri sérstakt að mæta Arsenal

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Henry segist vera mikill Highbury-maður.
Henry segist vera mikill Highbury-maður. Nordic Photos/Getty Images

Frakkinn Thierry Henry segir að það yrði óneitanlega mjög sérstakt fyrir sig færi svo að Barcelona myndi dragast gegn Arsenal í Meistaradeildinni á eftir.

Henry spilaði í ein átta ár með Arsenal og finnst hann aldrei hafa fengið almennilegt tækifæri til þess að kveðja stuðningsmenn félagsins.

„Auðvitað yrði það mjög sérstakt að lenda á móti Arsenal. Það gera sér allir grein fyrir því. Það yrði mjög skrítið fyrir mig vegna þeirrar ástar sem ég hef á félaginu og stuðningsmönnum þess. Ég hef ekki enn fengið tækifæri til þess að fara á Emirates síðan ég fór til Barcelona," sagði Henry.

„Það eru enn margir strákar í Arsenal-liðinu sem ég þekki. Ekki bara leikmenn heldur líka fólk á bakvið tjöldin sem gerir félagið að því sem það er. Ég tengist Emirates ekki sömu böndum og Highbury. Þar spilaði ég í sjö ár. Ég spilaði svo bara 18 leiki á Emirates sökum meiðsla. Ég er Highbury-maður. Það var sérstakur og góður staður.

Ég er ekki að segja að ég vildi sleppa við að spila gegn Arsenal en það yrði óneitanlega mjög skrítið," sagði Henry.

Dregið verður í Meistaradeildinni klukkan 11.00 á eftir og verður fylgst með drættinum í beinni lýsingu hér á Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×