Fótbolti

Pires ætlar að leggja gömlu félagana

Nordic Photos/Getty Images

Franski miðjumaðurinn Robert Pires hjá Villarreal er vongóður um að spænska liðið geti slegið fyrrum félaga hans í Arsenal út úr Meistaradeildinni.

Villarreal á fyrri leik liðanna á heimavelli í kvöld en í næstu viku snýr Pires aftur til Lundúna þar sem hann lék áður með Arsenal.

"Við erum með gott lið og erum tilbúnir í að leggja Arsenal. Draumur okkar er að komast í úrslitin og til þess þurfum við að vinna Arsenal. Ég er metnaðarfullur knattspyrnumaður og ég verð mjög vonsvikinn ef við komumst ekki áfram," sagði Pires.

Frakkinn hefur sýnt lipra spretti með spænska liðinu þrátt fyrir að hafa lent í basli með meiðsli síðan hann fór frá Englandi árið 2006.

"Margir sögðu að ég væri búinn þegar ég fór frá Arsenal og að ég ætlaði bara að hafa það huggulegt á Spáni. Mig langar að stinga upp í þetta sama fólk með því að spila mína bestu leiki á móti Arsenal," sagði Pires.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×