Fótbolti

Alonso íhugaði að fara fyrir ári síðan

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Xabi Alonso.
Xabi Alonso.

Xabi Alonso hefur greint frá því að hann hafi fyrst byrjað að hugsa um að yfirgefa Liverpool fyrir einu ári síðan.

Það var einmitt fyrir ári síðan sem Rafa Benitez, stjóri Liverpool, reyndi að selja Alonso frá félaginu þar sem hann var að safna peningum til þess að reyna að kaupa Gareth Barry.

Á þeim tíma hafði Alonso ekki beint verið að brillera með Liverpool og var aðeins í byrjunarliðinu í 16 leikjum leiktíðina 2007/08.

Hann sló svo rækilega í gegn á síðustu leiktíð og það var frammistaða hans þá sem vakti áhuga Real Madrid.

„Það var ekki auðveld ákvörðun að ákveða að yfirgefa Liverpool. Eftir fimm ár hafði ég upplifað stórkostleg kvöld á Anfield þar sem ég fékk stuðning frá líklega bestu stuðningsmönnum heims. Þess vegna verð ég alltaf þakklátur og hef ekkert nema góðar minningar af stuðningsmönnunum," sagði Alonso.

„Síðasta sumar lagði félagið til að ég yrði seldur svo það væru til peningar fyrir nýja leikmenn. Það var erfitt að kyngja því en ég tók því eins og atvinnumaður. Á þeirri stundu breyttist hugsun mín samt og ég fór að spá í hvort það væri ekki kominn tími á eitthvað nýtt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×