Fótbolti

Sir Alex: Vill fá annað tækifæri á móti Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, eftir tapið á móti Barcelona í vor.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, eftir tapið á móti Barcelona í vor. Mynd/AFP

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að óskamótherjar sínir í úrslitaleik Meistaradeildarinnar næsta vor séu Evrópumeistarar Barcelona en hann vill endilega fá tækifæri til að hefna fyrir tapið í úrslitaleiknum í Róm í vor.

„Ég myndi fagna því að fá annað tækifæri á móti Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Það væru óskamótherjarnir okkar," sagði Ferguson í viðtali við Daily Star.

„Við vitum hvað fór úrskeiðis í þessum leik og það myndi hjálpa mikið til. Ég er ekki tilbúinn að segja hvað við gerðum vitlaust í þessum en leik en ég get sagt það að ég tók upptökurnar með mér í fríið og horfði á leikinn aftur," sagði Sir Alex sem segir að United-menn hafi farið í gegnum allt í kringum leikinn.

„Ég skoðaði leikinn frá öllum hliðum með starfsmönnum félagsins. Við fórum yfir undirbúninginn, hvort við höfum valið rétt hótel og hvort við höfum æft rétt. Við fórum í gegnum alla hluti," sagði Ferguson.

„Það er enginn sáttur við að tapa í úrslitaleik í Evrópukeppni. Þetta var fyrsti úrslitaleikurinn sem ég tapaði og þetta voru mikil vonbrigði," sagði Ferguson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×