Fótbolti

Didier Drogba fékk tveggja leikja bann - á skilorði til ársins 2013

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba fær hér rauða spjaldið í leiknum á móti Inter.
Didier Drogba fær hér rauða spjaldið í leiknum á móti Inter. Mynd/AFP
Didier Drogba, framherji Chelsea, missir af tveimur fyrstu leikjum liðsins í Meistaradeildinni á næsta tímabili eftir að aganefnd evrópska knattspyrnusambandsins dæmdi hann í tveggja leikja bann fyrir að stíga á Inter-manninn Thiago Motta.

Drogba fékk rautt spjald í leiknum sjálfum og var þetta enn einn stóri leikurinn þar sem hann missir stjórn á skapi sínu.

Drogba byrjaði þetta tímabil í fimm leikja banni í Meistaradeildinni eftir að hafa brjálast út í dómarann eftir tap Chelsea á móti Barcelona í seinni undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra.

Tveir leikir af fyrrnefndu fimm leikja banni Drogba voru á skilorði og brottreksturinn á móti Inter þýðir að skilorðið hefur nú verið framlengt til 15. júlí 2013 en náði áður til 15. júlí 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×