Skoðun

Til Ögmundar Jónassonar

Hannes Pétursson rithöfundur skrifar
Kæri Ögmundur.

Ég sé í grein eftir þig í Fréttablaðinu 15. þessa mánaðar að þú telur aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu stríða gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Þess vegna hlýt ég að spyrja: Hvernig getur þú setið á Alþingi Íslendinga án þess að berjast fyrir því sleitulaust að þeirri aðild verði slitið? Oft hef ég hrifizt af mælsku þinni og málafylgju í ræðustóli þingsins, en aldrei heyrt þig krefjast þess að EES-samningnum verði sagt upp. Mér virðist að í þessu efni hefði pólitísk samkvæmni af þinni hálfu mátt vera rishærri.

Það er frægt að hershöfðinginn Cató hinn eldri lauk öllum ræðum sínum í öldungaráði Rómar að fornu á orðunum: „Þar að auki legg ég til að Karþagó verði lögð í rúst." Eðli málsins samkvæmt færi vel á því ef þú, sem hefur unnið drengskaparheit að stjórnarskrá landsins eins og aðrir alþingismenn, lykir öllum ræðum þínum í þingsalnum til að mynda þannig: „Þar að auki krefst ég þess að aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu verði slitið". Vonandi fær maður að heyra eitthvað þvíumlíkt af munni þínum eftir að þingið kemur aftur saman nú á haustdögum.

Með kveðju,

Hannes Pétursson.






Skoðun

Skoðun

Er veganismi á undan­haldi?

Aldís Amah Hamilton,Kristín Helga Sigurðardóttir,Adelina Antal,Hanna Halldórsdóttir,Sigrún Elfa Kristinsdóttir,Lowana Veal skrifar

Skoðun

Snið­ganga fyrir Palestínu

Hólmfríður Drífa Jónsdóttir,Ragnhildur Hólmgeirsdóttir,Hrönn G. Guðmundsdóttir,Katrín Björg Þórisdóttir,Þorbjörg Ída Ívarsdóttir,Yvonne Höller skrifar

Sjá meira


×