Fótbolti

Chelsea í góðum málum í Meistaradeildinni eftir sigur í Moskvu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yuri Zhirkov sést hér skora markið sitt í dag.
Yuri Zhirkov sést hér skora markið sitt í dag. Mynd/Nordic Photos/Getty
Chelsea er áfram með fullt hús í Meistaradeildinni eftir 2-0 sigur á rússneska liðinu Spartak Moskvu í Moskvu í uppgjöri toppliðanna í F-riðli í dag. Bæði lið höfðu unnið tvo fyrstu leiki sína í keppninni og hafði Spartak ekki fengið á sig mark fyrir leikinn. Chelsea skoraði bæði mörkin sín í leiknum í fyrri hálfleiknum.

Rússinn Yuri Zhirkov valdi vettvanginn til að opna markareikninginn með Chelsea en hann kom liðinu í 1-0 á móti löndum sínum með frábæru skoti á 23. mínútu. Zhirkov var þar með fyrsti Rússinn til að skora hjá rússnesku liði í Meistaradeildinni og fyrsti leikmaður til að skora hjá Spartak Moskvu liðinu í Meistaradeildinni í ár.

Nicolas Anelka kom Chelsea í 2-0 tveimur mínútum fyrir hálfleik eftir hafa fengið flotta sendingu inn fyrir vörnina frá Mickael Essien. Anelka var búinn að vera ágengur upp við marka Spartak allan hálfleikinn og hafði fengið algjört dauðafæri þremur mínútum áður.

Chelsea fékk færi til að bæta við mörkum í seinni hálfleiknum og sigurinn var aldrei í hættu. Chelsea hefur þar með þriggja stiga forskot á Spartak-liðið á toppi F-riðilsins, státar af markatölunni 8-1 og betri stöðu í innbyrðisleikjum. Það virðist því fátt ætla að koma í veg fyrir sigur enska liðsins í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×