Enski boltinn

Tippar á það að Wayne Rooney brjóti 40 marka múrinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney hefur skorað 14 mörk í síðustu 11 leikjum.
Wayne Rooney hefur skorað 14 mörk í síðustu 11 leikjum. Mynd/AP
Wayne Rooney skoraði tvö mörk í 4-0 sigri Manchester United á AC Milan í Meistaradeildinni í gær og er þar með búinn að skora 30 mörk á tímabilinu.

Wayne Rooney er fyrir löngu búinn að bæta sitt persónulega met en hann hafði mest áður skorað 23 mörk á tímabilinu 2006 til 2007.

Rooney er búinn að skora 14 mörk í síðustu 11 leikjum og með sama áframhaldi nær hann afreki Cristiano Ronaldo sem skoraði 42 mörk tímabilið 2007 til 2008. Metið á hinsvegar Denis Law sem skoraði 46 mörk tímabilið 1963 til 1964.

„Ef hann heldur áfram í þessum ham þá mun hann örugglega ná 40 mörkum," sagði Darren Fletcher, félagi Wayne Rooney hjá United, við Sky Sports.

„Ég held að Rooney láti ekki þetta tækifæri framhjá sér fara. Hann er ákveðinn leikmaður og við vonum að hann haldi áfram að skora því við erum í haðri baráttu í bæði deildinni og Meistaradeildinni," sagði Fletcher.

Wayne Rooney og Manchester United eiga eftir níu deildarleiki og við bætast fleiri leikir í Meistaradeildinni ef liðið kemst lengra í þeirri keppni.

„Við skulum sjá til hvort að hann nái að skora 40 mörk en ég er líka viss um að stjórinn haldi honum á tánum með nýjum áskorunum," segir Fletcher og bætir við:

„Rooney skorar vonandi í öllum leikjunum sem við eigum eftir en það er þó enn mikilvægara að hann skori þessi mikilvægu mörk sem eiga eftir að skila okkur sigrum í þessum leikjum," sagði Darren Fletcher.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×