Fótbolti

Barcelona náði aðeins jafntefli í Rússlandi - Messi spilaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. Mynd/AP

Barcelona náði aðeins 1-1 jafntefli á móti Rubin Kazan í leik liðanna í D- riðli Meistaradeildarinnar í dag en leikurinn fór fram á undan öðrum leikjum dagsins vegna tímamismunar í Rússlandi.

Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, tók áhættu og setti Lionel Messi inn á síðasta hálftímann en allt kom fyrir ekki og liðið varð að sætta sig við að fara aðeins með eitt stig heim til Spánar.

Rubin Kazan er því áfram með tak á spænsku meisturunum sem hafa ekki náð að vinna þá í þremur tilraunum.

Christian Noboa kom Rubin Kazan í 1-0 með marki úr vítaspyrnu á 30. mínútu eftir að Dani Alves hafði gerst brotlegur inn í teig.

Þannig var staðan í hálfleik og allt fram að 60. mínútu leiksins þegar Andrés Iniesta fiskaði víti fyrir Barcelona. David Villa fór á punktinn og jafnaði leikinn.

Lionel Messi kom inn á sem varamaður strax eftir að David Villa jafnaði leikinn. Messi minnti nokkrum sinnum á sig og átti meðal annars skalla úr góðu færi sem fór yfir markið.

Obafemi Martins hjá Rubin Kazan fékk frábært færi fjórum mínútum fyrir leikslok en skallaði þá í stöngina af stuttu færi. Barcelona fékk þó fleiri færi og þar á meðal skaut Andrés Iniesta yfir markið úr algjöru dauðafæri í uppbótartíma leiksins.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×