Fótbolti

Áfrýjun Bayern hafnað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Franck Ribery fær hér að líta rauða spjaldið gegn Lyon.
Franck Ribery fær hér að líta rauða spjaldið gegn Lyon. Nordic Photos / AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur staðfest að Franck Ribery verður ekki með Bayern München gegn Inter í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu síðar í mánuðinum.

Ribery fékk beint rautt spjald í fyrri leik Bayern og Lyon í undanúrslitum keppninnar og var fyrir vikið dæmdur í þriggja leikja bann. Bayern áfrýjaði úrskurðinum en áfrýjuninni var í dag hafnað.

Hins vegar hafa forráðamenn Bayern ekki gefist upp og ætla að fara með málið til alþjóðlegs áfrýjunardómstóls íþróttamála, CAS.

„Við ætlum að halda baráttunni áfram," sagði Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern. „Hvorki félagið né Franck Ribery sætta sig við þessa niðurstöðu og munum við leita allra leiða til að fá þessu breytt."

Úrslitaleikurinn fer fram þann 22. maí næstkomandi en Ribery mun samkvæmt banninu einnig missa af fyrsta leik næsta keppnistímabils í Meistaradeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×