Fótbolti

Mourinho fékk eins leiks bann og sex milljónir í sekt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid.
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid. Mynd/AP

Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, var í kvöld dæmdur í eins leiks bann hjá UEFA fyrir að skipa leikmönnum sínum að fá viljandi rautt spjald í 4-0 sigri Real Madrid á Ajax í Meistaradeildinni á dögunum.

Þeir Xabi Alonso og Sergio Ramos fengu báðir sitt annað gula spjald í leiknum fyrir að tefja leikinn og það var augljóst að það var eitthvað skrítið í gangi.

Með því að fá rautt spjald fóru þeir félagar í leikbann í lokaleik riðilsins á móti Auxerre í leik sem skiptir ekki máli því Real Madrid er búið að vinna riðilinn. Alonso og Ramos mæta síðan með hreint borð inn í sextán liða úrslitin og það var aðalmarkmiðið með því að ná í umrædd rauð spjöld. Allir þrír verða nú fjarri góðu gammni á móti franska liðinu.

Auk leikbannsins fékk Mourinho 40 þúsund evrur í sekt sem gera um sex milljónir íslenskra króna. Mourinho er einnig á skilorði næstu þrjú árin og fær eins leiks bann um leið og hann gerist sekur um óviðeignandi hegðun að mati aganefndar UEFA.

Mourinho var ekki sá eini í Real Madrid sem fékk peningasekt. Xabi Alonso og Sergio Ramos þurfa báðir að greiða 20 þúsund evrur, Iker Casillas þarf að borga 10 þúsund evrur í sekt fyrir að koma skilaboðunum áfram og Jerzy Dudek fékk fimm þúsund evra sekt fyrir að bera skilaboðin frá Mourinho til Casillas.

Real Madrid þarf einnig að greiða 120 þúsund evra sekt fyrir þessa óíþróttamannslega hegðsun þjálfara og leikmanna sinna en það eru rúmlega 18 milljónir íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×