Skoðun

Þögn er samþykki

Í ljósi umræðna síðustu mánuði um fíkniefnaleit í framhaldsskólum langar mig að velta eftirfarandi fram:

Er ekki hagur okkar allra og þá ekki síst þeirra sem ekki neyta fíkniefna að vera öruggir í sínu umhverfi? Það að fíkniefnaleit með hundum fari fram í framhaldsskólum landsins tel ég vera góða leið til að skapa öryggi fyrir þá sem ekki neyta fíkniefna.

Hingað til hefur markviss leit á ungmennum ekki talist undir mannréttindabrot, sbr. áfengisleit fyrir framhaldsskólaböll. Hefur þetta flokkast undir forvarnir. Er markviss fíkniefnaleit eitthvað annað? Þar erum við að tala um ólögleg fíkniefni.

Flest okkar sem starfa í kringum ungt fólk vitum að fíkniefnasala fer fram mjög víða, framhaldsskólarnir eru þar engin undantekning. Eigum við bara að sætta okkur við það eða eigum við að gera eitthvað í því? Framhaldsskólar landsins eru opinberar byggingar, þar á fíkniefnasala ekki að fara fram (frekar en annarsstaðar). Til að sporna við því er markviss fíkniefnaleit góð leið.

Sú leit sem framkvæmd var í Tækniskóla Íslands í vetur hefur verið umdeild. Var hún ekki framkvæmd vegna rökstudds gruns um að þar færi fram sala og neysla? Hvar eru þessar upplýsingar? Hver var niðurstaða leitarinnar, fundust fíkniefni?

Við megum ekki sofna á verðinum, það sem verið er að tala um eru ólögleg fíkniefni. Það að börn og unglingar geti nálgast þessi efni í skólanum sínum er ekki ásættanlegt. Til þess að breyta þessu verðum við öll að leggjast á eitt og ræða þetta stóra og mikla vandamál opinskátt. Það að þagga málið niður og fordæma jafnvel aðgerðir tel ég vera það sama og samþykki.

Ég sem móðir og náms- og starfsráðgjafi ætla ekki að þegja um þetta og hvet aðra sem málið snertir til að gera slíkt hið sama.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×