Enski boltinn

Redknapp: Tottenham getur alveg orðið meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham Hotspur.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham Hotspur. Mynd/AFP
Harry Redknapp, stjóri Tottenham Hotspur, er sannfærður um að sitt lið geti barist um enska meistaratitilinn á þessu tímabili en hann kom liðinu frekar óvænt inn í Meistaradeildina á síðustu leiktíð.

„Ég tel að við getum verið í titilbaráttunni því við erum með leikmenn til þess," sagði Harry Redknapp og bætti við: „Við verðum að stefna svo hátt því við gætum alveg unnið titilinn," sagði Redknapp.

„Á síðasta tímabili stefndum við á að komast í hóp fjögurra efstu og það er ljóst að ef þú stefnir ekki hátt þá nærðu engum árangri," sagði Harry Redknapp.

Það verður nóg að gera hjá Tottenham í ágúst því auk þess að enska úrvalsdeildin byrjar þá mun liðið spila í forkeppni Meistaradeildarinnar. Redknapp segir að hann þurfi að styrkja liðið ætli það sér að gera eitthvað í Meistaradeildinni í vetur.

„Það er frábært að vera í Meistaradeildinni og við erum bara sáttir að fá að vera þar. Ef okkur tekst að komast inn í riðlakeppnina þá getum við gert góða hluti. Við höfum góða leikmenn og suma frábæra hjá okkar félagi og þeir geta aðeins orðið enn betri," sagði Harry Redknapp.

Tottenham mætir New York Red Bulls í æfingaleik í Bandaríkjunum í nótt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×