Körfubolti

Hlynur með yfirburða forystu í fráköstum í sænsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson hefur tekið 14 fráköst að meðaltali í leik í fyrstu fimm leikjum sínum með Sundsvall Dragons. Hann er langefstur í fráköstum í sænsku úrvalsdeildinni en Hlynur er að taka tæplega fjögur fleiri fráköst að meðaltali í leik en næsti maður.

Hlynur hefur tekið alls 70 fráköst, 29 í sókn og 41 í vörn. Hlynur hefur tekið 14 fráköst eða fleiri í fjórum af þessum fimm leikjum en mest tók hann 18 fráköst á móti Loga Gunnarssyni og félögum í Solna Vikings.

Hlynur tók "bara" átta fráköst í fyrsta leiknum eftir meiðslin sem héldu honum frá í þremur leikjum. Hann bætti strax úr því með því að taka 15 fráköst í næsta leik. Hlynur er líka með 15,4 stig og 3,2 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Hlynur og félagar í Sundsvall Dragons mæta Solna Vikings á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld en þar verða þrír íslenskir landsliðsmenn í eldlínunni. Auk Hlyns spilar Jakob Örn Sigurðarson með Sundsvall en hjá Solna er Logi Gunnarsson í aðalhlutverki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×