Körfubolti

Sundsvall komið í 2-1 eftir tíu stiga heimasigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Mynd/Valli
Sundsvall Dragons er komið í 2-1 í úrslitaeinvíginu á móti Norrköping Dolphins í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta en það lið sem fyrr vinnur fjóra leiki verður sænskur meistari. Sundsvall var á heimavelli í kvöld og vann 10 stiga sigur, 80-70.

Hlynur Bæringsson átti flottan alhliða leik fyrir Sundsvall en hann var með 16 stig, 10 fráköst, 6 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Jakob Örn Sigurðarson skoraði 8 stig og gaf 2 stoðsendingar.

Liðin höfðu skipts á að vinna eins stigs sigur á útivelli í fyrstu tveimur leikjum úrslitaeinvígisins en Sundsvall var á undan að vinna heimaleik og vann auk þess sinn annan leik í röð í einvíginu.

Sundsvall-liðið byrjaði leikinn vel og Jakob kom þeim meðal annars í 19-7 með þriggja stiga körfu þegar tæpar 4 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Sundsvall var síðan 22-14 yfir eftir fyrsta leikhlutann.

Sundsvall hélt forskotinu fram að hálfleik og var með níu stiga forskot, 44-35, þegar liðin gengu til leikhlés. Hlynur skoraði 9 stig í öðrum leikhluta en hann hitti úr 5 af 6 skotum sínum í fyrri hálfleiknum og skoraði alls tólf stig fyrir hlé.

Norrköping skoraði fjögur fyrstu stig seinni hálfleiks en körfur frá Hlyni og Jakobi komu Sundsvall í 49-41. Norrköping-liðið var hinsvegar sterkara í þriðja leikhlutanum og var búið að jafna metin í 54-54 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum.

Norrköping vann þriðja leikhlutann á endanum 26-13 og var því fjórum stigum yfir, 57-61, fyrir lokaleikhlutann.

Sundsvall byrjaði fjórða leikhlutann frábærlega, skoraði 14 af fyrstu 18 stigum hans og komst í 71-65 þegar 4 mínútur voru eftir af leiknum. Sundsvall vann leikhlutann á endanum 23-9 og fagnaði mikilvægum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×