Fótbolti

Pique: Rooney er kröftugasti leikmaður sem ég hef séð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gerard Pique, miðvörður Barcelona, mun reyna að stoppa Wayne Rooney í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley á morgun en hann hefur hrósað enska landsliðsframherjanum í blaðaviðtölum fyrir leikinn.

Pique telur að það hafi hjálpað Barcelona heilmikið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum að Wayne Rooney var látinn spila út á kanti. Pique segir ennfremur að liðsmenn Barcelona megi alls ekki gefa Rooney neinn tíma með boltann.

„Ég hef aldrei séð kröftugari leikmann en Wayne," sagði Gerard Pique. „Hann fer framhjá mönnun, er með frábært skot og svo spilar hann af fullum krafti og á frábær hlaup frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu," sagði Pique.

„Hann er í heimsklassa og að þessu sinni, ólíkt því sem var í Róm þegar hann var út á kanti, þá verður hann í framlínunni og er því mun hættulegri," sagði Pique.

„Wayne er að upplagi framherji og hann skorar alltaf mikið af mörkum. Við verðum að halda einbeitingu allan tímann og sjá til þess að hann fái engan tíma með boltann því annars mun hann refsa okkur," sagði Pique.

„Við náðum vel saman þegar við vorum hjá United og einu sinni lét stjórinn okkur báða skipta um skó af því hann var ekki hrifinn af því að við værum í gulum skóm. Við erum góðir félagar en inn á vellinum erum við engir vinir. Við munum berjast fyrir okkar málstað," sagði Gerard Pique sem lék með Manchester United frá 2004 til 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×