Fótbolti

Úrslitaleikurinn í Meistaradeild Evrópu 2013 á Wembley

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Liðsmenn Barcelona fögnuðu sigri á Wembley í maí
Liðsmenn Barcelona fögnuðu sigri á Wembley í maí Mynd/Getty Images
Evrópska knattspyrusambandið UEFA hefur greint frá því að úrslitaleikurinn í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu árið 2013 fari fram á Wembley-leikvanginum í London. Aðeins þrjár vikur eru síðan Manchester United og Barcelona léku til úrslita á sama velli í sömu keppni.

Ákvörðunin kemur nokkuð á óvart en tillagan var einróma samþykkt í framkvæmdaráði UEFA. Ástæða tillögunnar er 150 ára afmæli enska knattspyrnusambandsins árið 2013.

„Ákvörðunin virðist kannski sérstök en ég held að það hafi verið mikilvægt fyrir okkur að heiðra afmæli leiksins,„ sagði Michel Platini forseti UEFA við fréttamenn.

Knattspyrnulögin fagna um leið 150 ára afmæli sínu. Oft er talað um að England hafi fundið upp knattspyrnuna og sé heimaland hennar. Margir gagnrýna þá fullyrðingu. Knattspyrna hafi verið spiluð í mun lengri tíma. Hins vegar er það viðurkennt að Englendingar voru fyrstir til þess að skrá reglur leiksins.

Barcelona sigraði Manchester United 3-1 í úrslitaleiknum í maí síðastliðnum. UEFA var harðlega gagnrýnt fyrir hátt miðaverð á leikinn. Platini hefur lofað því að málið verði skoðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×