Fótbolti

Breiðablik kjöldregið í Þrándheimi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kristinn Steindórsson náði sér ekki á strik frekar en aðrir leikmenn Blika í kvöld.
Kristinn Steindórsson náði sér ekki á strik frekar en aðrir leikmenn Blika í kvöld.
Líkurnar á því að Breiðablik komist áfram í Meistaradeildinni í knattspyrnu eru nánast engar eftir að liðið steinlá, 5-0, fyrir Rosenborg í Þrándheimi í kvöld.

Blikar stóðu sig ágætlega í fyrri hálfleik og fengu aðeins á sig eitt mark sem rétt fyrir hlé. Það skoraði Per Skjeldbred með laglegu skoti frá vítateigslínunni eftir að Blikum hafði gengið illa að hreinsa boltann frá línunni.

Munurinn hefði hæglega getað verið meiri enda voru yfirburðir norska liðsins miklir. Ingvar Kale var aftur á móti í stuði í marki Blika.

Í síðari hálfleik varð síðan hrun hjá Blikum. Mikael Dorsin skoraði annað markið strax á 48. mínútu. Markið kom með skalla af stuttu færi.

Þriðja markið kom á 72. mínútu. Þá skoraði Markus Henriksen með skoti utan teigs. Kristinn Jónsson setti engu pressu á leikmanninn sem gat skotið í friði og boltinn sögn í fjærhorninu.

Aðeins fjórum mínútum síðar kom fjórða markið. Það skoraði Rade Prica með skalla í teignum. Varnarmenn Blika steinsofandi og Prica ekki í neinum vandræðum með að skora.

Fimmta markið kom fjórum mínútum fyrir leikslok. Þá sólaði Trond Olsen varnarmann Blika, Finn Orra Margeirsson, upp úr skónum og skoraði. Finnur braut reyndar á honum í skotinu og Olsen hefði fengið víti ef hann hefði ekki skorað.

Blikarnir vinna tæplega upp þetta forskot norska liðsins í síðari leik liðanna á Kópavogsvelli eftir viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×