Fótbolti

Barcelona, AC Milan, City og Dortmund gætu lent saman í riðli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez leikur með Manchester City og væri ekki sáttur með svona dauðariðil.
Carlos Tevez leikur með Manchester City og væri ekki sáttur með svona dauðariðil. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það verður dregið í Meistaradeildinni klukkan 15.45 í dag og verður hægt að fylgjast með honum í beinni sjónvarpsútsendingu hér inn á Vísi. Ensku liðin Manchester United, Chelsea og Arsenal eru öll í efsta styrkleikaflokki en róðurinn gæti orðið ansi þungur fyrir fjórða enska liðið, nýliðana í Manchester City.

Manchester City er í þriðja styrkleikaflokki og getur því mætt stórliðum á borð við Barcelona, Real Madrid, Bayern München og Inter Milan í riðlakeppninni. Það er ljóst að fari allt á versta veg fyrir lærisveina Roberto Mancini þá gæti City-liðið lent í einum erfiðasta riðli allra tíma.

Barcelona, AC Milan, Manchester City og Borussia Dortmund geta nefnilega endað í einum og sama riðlinum þegar dregið verður í dag.  Öll þessi félög nema City hafa unnuð Meistaradeildina á síðustu árum. Barcelona (2006, 2009 og 2011), AC Milan (1994, 2003 og 2007) og Dortmund (1997) en enginn efast lengur um styrkleika City sem hefur safnað að sér stórstjörnum undanfarin tvö sumur.

Þetta yrði því einn mesti dauðariðill sögunnar en svo á eftir að koma í ljós hvort City-menn verði svona óheppnir eða hvort að einhver önnur stórlið dragist saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×