Körfubolti

Pau Gasol og Dirk Nowitzki mætast í dag á EM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nowitzki og Gasol eigast hér við í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í vor.
Nowitzki og Gasol eigast hér við í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í vor. Mynd/Nordic Photos/Getty
Keppni í milliriðlum á EM í körfubolta í Litháen hefst í dag og bíða margir spenntir eftir fyrsta leik dagsins þar sem mætast Evrópumeistarar Spánverjar og Þýskaland sem hefur innanborðs einn allra besta körfuboltamann heims.

Pau Gasol hefur farið á kostum með spænska landsliðinu til þessa í keppninni en er væntanlega ekki búinn að gleyma því þegar Dirk Nowitzki og félagar í Dallas Mavericks sópuðu Los Angeles Lakers út úr undanúrslitum Vesturdeildarinnar í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í ár.

Nowitzki fór síðan alla leið með Dallas-liðinu og varð NBA-meistari í fyrsta sinn á ferlinum. Nowitzki var kosinn besti leikmaður úrslitanna.

Pau Gasol var með 21,8 stig og 5,5 fráköst að meðaltali á 25,3 mínútum í riðlakeppninni en hann hitti þar úr 65,3 prósent skota sinna.

Dirk Nowitzki var með 20.4 stig og 6,0 fráköst að meðaltali á 27,4 mínútum í riðlakeppninni og hitti úr 49,3 prósent skota sinna og 92,6 prósent vítanna.

Þrjú lið fóru upp úr hverjum riðli og spila saman í tveimur sex liða milliriðlum. Liðin munu leika gegn þeim þjóðum sem voru ekki með þeim í riðli og leika því öll liðin þrjá leiki. Spánverjar munu sem dæmi leika gegn Þýskalandi, Serbíu og Frakklandi en Þjóðverjar mæta Tyrklandi og Litháen auk Spánar.

Þau lið sem verða í efstu fjórum sætunum í hvorum milliriðli fara áfram í átta liða úrslitin sem hefjast 14. september.

Fyrstu leikirnir í milliriðlum í dag: (íslenskur tími)

Milliriðill 1

Þýskaland-Spánn kl. 12.30

Tyrkland-Frakkland kl. 15.00

Serbía-Litháen kl. 18.00




Fleiri fréttir

Sjá meira


×