Körfubolti

Makedónía sló óvænt út heimamenn í Litháen á EM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Makedónar fagna hér sigri í kvöld.
Makedónar fagna hér sigri í kvöld. Mynd/AP
Makedónía tryggði sér óvænt undanúrslitaleik á móti Evrópumeisturum Spánar á Evrópumótinu í körfubolta í Litháen eftir tveggja stiga dramatískan sigur á gestgjöfum Litháen, 67-65, í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld. Makedónía hefur aldrei áður komist svona langt í úrslitakeppni EM í körfubolta.

Vlado Ilievski var hetja Makedóníu þegar hann skoraði þriggja stiga körfu 11,2 sekúndum fyrir leikslok og kom liði sínu yfir í 66-65. Litháen tókst ekki að skora í lokasókninni sinni og Ilievski setti niður síðasta stig leiksins af vítalínunni. Þetta voru einu stig Ilievski í seinni hálfleiknum en hann skoraði 12 stig í leiknum.

Bo McCalebb var langstigahæstur hjá Makedóníu með 23 stig en Vojdan Stojanovski skoraði 15 stig og hitti úr öllum fimm þriggja stiga skotum sínum.

Robertas Javtokas var stigahæstur hjá Litháen með 13 stig og Darius Songaila skoraði 12 stig en bakverðir liðsins voru ískaldir og liðið hitti aðeins úr 2 af 15 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Litháar tóku frumkvæðið í upphafi leiks og komust strax í 7-2. Makedónar komu strax til baka og héldu sér inn í leiknum og Litháen var bara tveimur stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 20-18.

Litháar virtust vera komnir í fín mál þegar þeir komust sjö stigum yfir í öðrum leikhluta en Makedónar gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í fjögur stig, 34-30, fyrir hálfleik.

Þar munaði mest um leik bakvarðanna Bo McCalebb (14 stig) og Vlado Ilievski (8 stig) þar sem að miðherjinn sterki Pero Antic var í villuvandræðum.

Vojdan Stojanovski sjóðhitnaði í seinni hálfleik og átti mikinn þátt í því að Makedónía komst yfir í þriðja leikhlutanum. Litháen var engu að síður 52-49 yfir fyrir lokaleikhlutann og það voru allir að bíða eftir því að Litháar myndur klára leikinn. Svo fór nú ekki.

Fjórði leikhlutinn var æsispennandi og úrslitin réðustu ekki fyrr en í blálokin þegar Litháar köstuðu frá sér varnarfrákasti og boltinn barst til Vlado Ilievski sem tryggði Makedóníu sögulegan sigur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×