Fótbolti

Milan íhugar að gera Del Piero tilboð

Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, hefur gefið í skyn að Milanóliðið muni reyna að semja við Alessandro del Piero næsta sumar en þá rennur samningur hans við Juventus út.

Juve hefur þegar tilkynnt að félagið ætli sér ekki að semja við Del Piero á nýjan leik og félagið hefur verið talsvert gagnrýnt fyrir að tilkynna það svo snemma.

Hinn 36 ára gamli Del Piero hefur ekkert tjáð sig um það hvort hann ætli að leggja skóna á hilluna næsta sumar eða hvort hann ætli að halda áfram.

"Ég hef lært að meta leikmenn af hæfileikum en ekki aldrei þeirra," sagði Galliani en Milan hefur undanfarin ár teflt fram liði með nokkrum eldri kempum.

"Stjörnur eins og Maldini og Costacurta hættu þegar þeir voru fertugir. Inzaghi er svo enn að spila með okkur en hann er 38 ára."

Milan var nálægt því að semja við Del Piero árið 1993 er hann var hjá Padova. Þá fór hann til Juve þar sem hann er löngu orðinn goðsögn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×