Körfubolti

Allir nema einn spá Grindavík sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þjálfarar í Iceland Express-deild karla búast við miklu af Giordan Watson á úrslitahelgi Lengjubikarsins.
Þjálfarar í Iceland Express-deild karla búast við miklu af Giordan Watson á úrslitahelgi Lengjubikarsins. Fréttablaðið/Vilhelm
Undanúrslit Lengjubikarsins fara fram í DHL-höllinni í kvöld og þar keppa fjögur lið um sæti í úrslitaleiknum á morgun. Fréttablaðið fékk þjálfara hinna liðanna í Iceland Express-deildinni til að spá um úrslit.

Þór Þorlákshöfn, Grindavík, Snæfell og Keflavík unnu sína riðla og tryggðu sér þar með sæti meðal fjögurra fræknu en fyrirtækjabikar KKÍ fer nú fram í sextánda sinn. Undanúrslitaleikirnir fara fram í kvöld og úrslitaleikurinn er síðan á morgun.

Gestgjafarnir eru ekki meðKR-ingar eru gestgjafar að þessu sinni en verða engu að síður fjarri góðu gamni sjálfir. Þórsarar úr Þorlákshöfn skildu Íslands- og bikarmeistarana eftir í riðlinum og tryggðu sér um leið í fyrsta sinn sæti meðal hinna fjögurra fræknu.

KR-ingar eiga engu að síður sinn fulltrúa um helgina því Benedikt Guðmundsson, fyrrum þjálfari liðsins, er einmitt þjálfari Þórsara. Benedikt gerði KR að fyrirtækjameisturum 2008 og fór einnig með KR-liðið alla leið í fyrsta úrslitaleik keppninnar árið 1996 sem og í úrslitaleikinn árið 2007.

Keflvíkingar hafa nú bætt metið, sem þeir áttu með KR-ingum og Njarðvíkingum, með því að komast í þrettánda sinn í undanúrslitin. Njarðvíkingar hafa ekki komst í undanúrslitin undanfarin tvö ár en það voru einmitt Keflvíkingar sem skildu þá eftir í ár með því að vinna hreinan úrslitaleik liðanna með tuttugu stigum.

Sigurður Ingimundarson er því kominn með Keflavíkurliðið meðal hinna fjögurra fræknu í ellefta sinn en hann hefur gert Keflavík fjórum sinnum að fyrirtækjameisturum og sjö sinnum farið með liðið í úrslitaleikinn. Sigurður hefur einnig farið einu sinni með Njarðvíkurliðið í úrslitaleikinn og enginn þjálfari hefur verið sigursælli í þessari keppni.

Snæfellingar unnu í fyrraSnæfellingar eiga titil að verja en þeir unnu KR í úrslitaleiknum í fyrra. Þjálfari liðsins, Ingi Þór Steinþórsson, ætti að kunna vel við sig í DHL-höllinni enda þjálfari KR fyrstu fimm árin eftir að DHL-höllin var tekin í notkun.

Fréttablaðið fékk þá átta þjálfara í Iceland Express-deildinni sem ekki eiga lið í undanúrslitunum í ár til þess að spá fyrir hvernig leikir helgarinnar muni fara. Það kemur kannski ekki á óvart að flestir spá Grindvíkingum sigri en það er aðeins einn af átta þjálfurum sem spáir ekki lærisveinum Helga Jónasar Guðfinnssonar titlinum.

Þjálfararnir sem tóku þátt í könnun Fréttablaðsins eru: Teitur Örlygsson (Stjörnunni), Hrafn Kristjánsson (KR), Einar Árni Jóhannsson (Njarðvík), Gunnar Sverrisson (ÍR), Örvar Þór Kristjánsson (Fjölnir), Bárður Eyþórsson (Tindastóll), Pétur Rúrik Guðmundsson (Haukar) og Ágúst Björgvinsson (Valur).

Grindvíkingar hafa unnið fyrstu fjórtán leiki tímabilsins, sjö í Iceland Express-deildinni, sex í Lengjubikarnum og svo einn í Meistarakeppni KKÍ. Þeir hafa þegar unnið tvo sigra í DHL-höllinni, fyrst dramatískan eins stigs sigur á KR í Meistarakeppninni þar sem Páll Axel Vilbergsson skoraði sigurkörfuna um leið og leiktíminn rann út og svo sannfærandi 26 stiga sigur á KR í deildinni í síðustu viku þar sem þeir héldu Íslands- og bikarmeisturum KR í aðeins 59 stigum á heimavelli.

Númeri of stórir fyrir alla„Ég held bara að Grindvíkingar séu númeri of stórir fyrir alla eins og staðan er í dag," sagði einn þjálfaranna. „Þetta er einfaldlega best mannaða lið landsins um þessar mundir og þeir eru á mikilli siglingu," sagði annar.

Snæfell fékk atkvæði frá einum þjálfara en sá hinn sami spáði því að Þórsarar myndu slá Grindavík út úr undanúrslitunum. Sex af átta spáðu Snæfelli sigri á Keflavík í seinni undanúrslitaleik kvöldsins en þar munar eflaust mikið um það að Keflvíkingar leika án stórskyttunnar Magnúsar Þórs Gunnarssonar sem tekur út leikbann í kvöld.



Watson og Bullock öflugirFréttablaðið fékk einnig þjálfarana til að sjá fyrir sér hvaða leikmaður mun standa upp úr um helgina. Þrír nefndu Giordan Watson, leikstjórnanda Grindavíkur, og tveir voru með hinn fílhrausta J"Nathan Bullock efstan á blaði. Grindvíkingarnir Ólafur Ólafsson og Páll Axel Vilbergsson komust líka á blað ásamt Snæfellingnum Jóni Ólafi Jónssyni.

Leikur Þórs og Grindavíkur hefst klukkan 18.30 í kvöld og strax á eftir, klukkan 20.30, hefst leikur Snæfells og Keflavíkur. Úrslitaleikurinn fer síðan fram klukkan 16.00 á laugardaginn. Allir leikirnir fara fram í DHL-höllinni í Frostaskjóli.

Spá hinna þjálfaranna

Þór Þorlákshöfn - Grindavík (kl. 18.30)

Þór: 1 atkvæði

Grindavík: 7 atkvæði

Snæfell - Keflavík (kl. 20.30)

Snæfell: 6 atkvæði

Keflavík: 2 atkvæði

Lengjubikarmeistarar

Grindavík: 7 atkvæði

Snæfell: 1 atkvæði

Besti leikmaður helgarinnar:

Giordan Watson, Grindavík: 3 atkvæði

J'Nathan Bullock, Grindavík: 2

Ólafur Ólafsson, Grindavík: 1

Páll Axel Vilbergsson, Grindavík: 1

Jón Ólafur Jónsson, Snæfelli: 1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×