Fótbolti

Messi: Ég vil aldrei fara frá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/AFP
Lionel Messi, leikmaður Barcelona, hefur verið hjá félaginu frá því að hann var ellefu ára og það kemur kannski ekki mörgum á óvart að hann ætlar sér að klára ferilinn í Katalóníu. Messi hefur skorað tólf mörk í síðustu fjórum leikjum Barcelona og næst er leikur á móti Sevilla í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld.

„Það hefur alltaf verið mitt markmið að klára ferillinn hjá Barcelona. Maður veit samt aldrei hvað gerist í framtíðinni en ef ég fengi að ráða þá færi ég aldrei frá Barcelona," sagði Lionel Messi í viðtali við Sky Sports.

„Ég sá aldrei þau lið spila sem fólk telur vera þau bestu í sögunni því ég er ekki nógu gamall til þess. Af þeim sem ég hef séð þá tel ég að núverandi Barcelona-lið sé það besta. Ég get samt ekki borið þetta saman því ég þekki ekki liðin frá þvi í gamla daga," sagði Messi sem hrósar þjálfaranum sínum.

„Síðan Guardiola kom þá hefur hann látið liðið spila flottan fótbolta. Hann færði mig ofar á völlinn og nær markinu til þess að geta skorað fleiri mörk. Áður en hann kom þá hafði ég ekki spila svona framarlega," sagði Messi.

„Pep undirbjó okkur betur á æfingum og undir hans stjórn er eins og hver leikur sé úrslitaleikur. Hann hefur mikla innsýn og allt sem hann gerir sýnir það að hann er besti þjálfarinn í heimi," sagði Messi.

Lionel Messi hefur skorað 50 mörk í 43 leikjum á þessu tímabili og alls 230 mörk í 312 leikjum í öllum keppnum fyrir Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×