Fótbolti

Birkir sagður á leið í ítalska boltann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. Nordic Photos / AFP
Fótbolti.net greinir frá því í dag að lítið beri á milli í samningaviðræðum Pescara á Ítalíu og belgíska liðsins Standard Liege um landsliðsmanninn Birki Bjarnason.

Fyrir nokkru greindu ítalskir fjölmiðlar frá áhuga Pescara, sem leikur sem nýliði í ítölsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð, á Birki.

Fram kemur á Fótbolta.net að Standard Liege sé reiðubúið að selja Birki þar sem liðið hafi bætt við sig miðvallarleikmönnum að undanförnu. Birkir er þó búinn að vera hjá Standard í skamman tíma, eða síðan í janúar á þessu ári.

Jim Solbakken, umboðsmaður hans, sagði við norska fjölmiðla á dögunum að Pescara hefði áhuga á kappanum en meira vildi hann ekki segja.

Segir í áðurnefndri frétt að líklegt sé að Birkir verði í fyrstu lánaður til Pescara út tímabilið og svo keyptur að því loknu, kjósi forráðamen ítalska liðsins að gera svo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×