Tveir af hverjum þremur farsímum sem seldir eru í Bandaríkjunum eru snjallsímar. Þetta kemur fram í reglubundnu yfirliti greiningarfyrirtækisins Nielsen sem tekur saman upplýsingar um snjallsímanotkun Bandaríkjamanna.
Niðurstöður Nielsen eru í takt við þróun síðustu mánaða. Ljóst er að tveir turnar ráða lögum og lofum á snjallsímamarkaðinum í vestanhafs.
Snjallsímar sem knúnir eru af Android-stýrikerfinu, sem framleitt er af Google, eru vinsælastir meðal neytenda. Markaðshlutdeild Android er 51.8 prósent. Tæknirisinn Apple og snjallsími þess, iPhone, fylgir fast á hæla Google með 34 prósent hlutdeild.
Apple er samt sem áður stærsti snjallsímaframleiðandi í Bandaríkjunum, enda þróar fyrirtækið hugbúnað og tækjabúnað iPhone snjallsímans.
En þrátt fyrir vinsældir Apple og Android þá virðist vera rými fyrir samkeppni. BlackBerry snjallsímarnir eru þeir þriðju vinsælustu í landinu. Framleiðandi símanna, Research in Motion, hefur átt í miklum erfiðleikum síðustu mánuði og hefur fyrirtækið verið rekið með tapi síðustu tvo ársfjórðunga.
Sérfræðingar eru þó ekki á einu máli hvaða tæknifyrirtæki sé líklegt til að hefja innreið sína á snjallsímamarkaðinn og tryggja sér þriðja sæti á eftir Android og Apple.

